Ferill 8. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 8 . mál.


Nd.

301. Breytingartillögur



við frv. til l. um efnahagsaðgerðir.

Frá Hreggviði Jónssyni.



1.     Í stað 3.–5. gr. komi þrjár nýjar greinar svohljóðandi:
. a.     (3. gr.)
..      Stofna skal sjóð er nefnist Atvinnutryggingarsjóður. Sjóðurinn skal vera sjálfstæð deild við Byggðastofnun. Sérstakur forstöðumaður skal ráðinn til að veita deildinni forstöðu. Hlutverk sjóðsins er að treysta eiginfjárstöðu og veita lán til endurskipulagningar, hagræðingar og framleiðniaukningar hjá útflutningsfyrirtækjum og fyrirtækjum í samkeppnisiðnaði. Jafnframt skal sjóðurinn hafa forgöngu um að breyta lausaskuldum útflutningsfyrirtækja og fyrirtækja í samkeppnisiðnaði í föst lán til langs tíma.
. b.     (4. gr.)
..      Stjórn Byggðastofnunar ákveður lánveitingar úr Atvinnutryggingarsjóði að fengnum tillögum sérstakrar samstarfsnefndar lánastofnana og banka. Ríkisendurskoðun fylgist með starfsemi sjóðsins og endurskoðar reikninga hans. Hún gefur Alþingi reglulega skýrslu um starfsemi sjóðsins.
. c.     (5. gr.)
..      Stofnfé Atvinnutryggingarsjóðs skal vera 1200 millj. kr. Þar af greiðast 600 milljónir króna úr ríkissjóði á árunum 1989–1991. Að auki skal ríkissjóður leggja sjóðnum til 600 millj. kr. sem ríkissjóður tekur að láni hjá Atvinnuleysistryggingasjóði á árunum 1988–1990.
..      Ríkissjóður endurgreiðir lánið samkvæmt sérstöku samkomulagi milli stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs og fjármálaráðherra.
..      Stjórn Byggðastofnunar er heimilt fyrir hönd Atvinnutryggingarsjóðs að taka lán hjá Seðlabanka Íslands eða fyrir milligöngu hans að fjárhæð allt að 1200 millj. kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt. Fjármálaráðherra er heimilt fyrir hönd ríkissjóðs að takast á hendur sjálfskuldarábyrgð á endurgreiðslu lánsins.
2.     Við 6. gr.
. a.     Á eftir orðinu „útflutningsfyrirtækja“ í 1. málsl. komi: og fyrirtækja í samkeppnisiðnaði.
. b.     Á eftir orðinu „útflutningsgreinum“ í 2. málsl. komi: og í samkeppnisiðnaði.
. c.     Við bætist nýr málsliður sem orðist svo: Sjóðnum skal heimilt að taka lán til að koma í veg fyrir neikvætt greiðsluflæði.
3.     Við 7. gr. Greinin falli brott.
4.     Við 9. gr. Við greinina bætist nýr málsliður er orðist svo: Þar skal kveða nánar á um hvaða atvinnustarfsemi skuli falla undir verksvið sjóðsins.
5.     Við 14. gr.
. a.     Í stað „til 15. febrúar 1989“ í 1. málsl. komi: fram til gildistöku laga þessara.
. b.     Í stað „15. febrúar 1989“ í 2. málsl. komi: gildistöku laga þessara.